Bebras áskorunin - Ísland

 
 

Velkomin

BEBRAS áskorunin 2019 stendur yfir dagana 11. - 15. nóvember


Markmið áskorunarinnar:
Að leysa eins mörg verkefni og þú getur á 45 mínútum. 
Það er ekki gert ráð fyrir að þú getir klárað öll verkefnin!

Leiðbeiningar fyrir nemendur:

  1. Skráðu þig inn með því að smella á "Innskráning" efst á síðunni og slá inn notandanafn og lykilorð sem þú fékkst afhent. Fara svo á "Mitt svæði" og ganga úr skugga um að upplýsingar um nafn og kyn séu rétt skráðar.
  2. Smella á "Áskoranir" og velja aldurshóp sem þátttakandi er skráður í.
  3. Við upphaf áskorunar eru allar spurningar merktar „Ósvarað“.
  4. Það eru 12-18 spurningar í heildina sem þarf að svara.
  5. Það er hægt að breyta svari hvenær sem er og svara spurningum í þeirri röð sem þátttakandi kýs.
  6. Það er alltaf hægt að eyða svari sem hefur þegar verið skráð með þvi að velja spurninguna og smella á Eyða. Munið að sumar spurningar þarf að VISTA sérstaklega og þá með því að ýta á vista hnapp neðst í spurningu - en flestar vistast sjálfkrafa 
  7. Þátttakendur hafa 45 mínútur til að ljúka áskorun. Efst í hægra horninu á skjánum er klukka sem sýnir tímann sem er eftir.
  8. Þegar búið er að svara öllum spurningunum þarf að velja ENDA ÁSKORUN neðst vinstra megin - og svara Já!
  9. Einkunnir/stig er ekki hægt að sjá fyrr en nokkrum dögum eftir að áskorun lýkur.


Reglur:
Verkefnin eru í þremur erfiðleikastigum; A, B og C þar sem  A er léttast og C er erfiðast.
Stigagjöfin er eftirfarandi:

Erfiðleikastig Rétt Rangt Ósvarað
A +6 stig -2 stig 0 stig
B +9 stig -3 stig 0 stig
C +12 stig -4 stig 0 stig

 


Allir skólar með nemendur á aldrinum  8 - 18 ára geta tekið þátt
Bebras áskorunin kannar rökhugsun og tölvufærni með því að láta þátttakendur leysa krefjandi og skemmitleg verkefni.
Það kostar ekkert að taka þátt og hvetjum við alla skóla til að vera með. Verkefnið er keyrt samhliða í flestum löndum í byrjun nóvember ár hvert.
Ísland hefur tekið þátt í Bebras áskoruninni með góðum árangri frá árinu 2015

Ár Fjöldi skóla Fjöldi nemenda
2018 24 1357
2017 24 2045
2016 18 1780
2015 14 475


Hvernig fer Bebras áskorunin fram?
Allir taka þátt í sömu vikunni. Áskorunin virkar í helstu vöfrum og á spjaldtölvum.
Spurningarnar eru miðaðar við aldur og mögulegir aldurshópar eru sex: 6-7, 8-9, 10-11, 12-13, 14-15 og 16-20 ára. Þegar nemendur eru stofnaðir í kerfinu þarf að ákveða hvaða aldurshópi þau tilheyra.
Eina sem þarf að gera er að skrá skólann að hausti í gegnum www.bebras.is/admin og í framhaldi að stofna aðgang fyrir þá nemendur sem ætla að taka þátt. Ferlið er einfalt og tekur ekki langan tíma.

Hvað er Bebras?
Bebras var upphaflega stofnað af Prófessor Valentina Dagiene hjá Háskólanum í Vilnius, en Bebras (e. Beaver) er heitið á dýrinu Bifur á litháísku. Hún fékk hugmyndina þegar hún var að ferðast um Finnland árið 2003 og hugmyndinni er ætlað að vekja áhuga nemenda á því að kynnast upplýsingatækni. Hún ákvað að nýta bifur sem ímynd áskoruninnar vegna þess dugnaðar og fullkomnunaráráttu sem þeir virðast hafa. Bifrar eru duglegir, vinnusamir og gáfaðir; og þeir vinna stöðugt í stíflunum sínum, bæði til að gera þær betri og stærri. Til gamans bendum við á að nóg efni er til á Youtube ef áhugi er fyrir að skoða hvernig bifurinn vinnur - kannski áhugavert þar sem dýrið finnst ekki á Íslandi og þekkja krakkar því ekki dýrið vel.

Fyrsta Bebras áskorunin var í Litháen árið 2004 en áskorunin hefur stækkað gríðarlega á stuttum tíma og var með yfir 500.000 þátttakendur árið 2012. Bebras er ein fjölmennasta áskorun sem notuð er til kennslu í upplýsingatækni

Eitt af markmiðum Valentinu Dagiene var að gera Bebras að alþjóðlegu átaki í fræðslu um upplýsingatækni í skólum. Fjöldi Evrópulanda hafa bæst í hópinn en Eistland, Þýskaland, Holland og Pólland voru fyrst til að bætast í hópinn árið 2006. Árið 2008 bættust Austurríki, Lettland og Slóvakía í hópinn. Árið 2009 hélt Ítalía fyrstu innanlandskeppnina sína og Finnland og Sviss gerðu það sama 2010. Frakkland, Ungverjaland og Slóvenía bættust í hópinn árið 2011 ásamt því að Japan var fyrsta landið utan Evrópu til að halda innanlands Bebras áskorun. Sama ár gerðu Belgía, Canada, Kýpur, Ísrael og Spánn prufuáskoranir fyrir nemendur sinna landa. Árið 2012 bættust síðan Búlgaría, Svíþjóð og Taivan í hópinn. Árið 2015 tekur Ísland þátt í fyrsta skipti.

Nánari upplýsingar um Bebras má finna á www.bebras.org 

Ský er í forsvari fyrir Bebras á Íslandi og hægt að fá nánari upplýsingar í gegnum sky@sky.is

Upplýsingar um Persónuvernd:

Hvaða gögnum er safnað og  hvers vegna: Þátttakendur eru skráðir í kerfið af kennara. Eftirfarandi upplýsingar eru skráðar: Nafn, Kyn, Bekkur og Þyngdarstig. Nafnið er notað til að prenta út viðurkenningarskjöl. Kynið til að sjá tölfræði milli kynja og tryggja að verkefnin henti öllum kynjum. Kyn þarf ekki að fylla út en er æskilegt. Bekkur er til að auðvelda dreifingu á viðurkenningarskjölum. Þyngdarstig til að tryggja að nemandi fái spurningar sem passa fyrir hans aldur.  Skráningar á umsjónarmönnum skóla eru niður á nafn umsjónarmanna og er netfang viðkomandi geymt sem tengiliðarupplýsingar fyrir viðkomandi skóla.

Með hverjum deilum við gögnum: Áskoruninn er á netinu og er hýst hjá tölvufyrirtæki sem er NEN7510: 2017 og ISO27001: 2013 staðfest, þar sem öryggi er vel skipulagt og við höfum samning við. Kennarar geta valið að taka ljósmyndir af nemendum sem taka þátt í keppninni og eru þær myndir þá sendar til okkar undir þeim reglum sem viðkomandi skóli fer eftir.  Myndirnar gætu verið notaðar til að segja frá keppninni.

Er gögnunum eytt? Gögn um þátttakendur í Bebras áskoruninni eru geymd í allt að tíu mánuði. Eftir það er öllum upplýsingum um þátttakendur eytt. Svörin sem eru gefin út niður á skóla, skólaár og kyn eru gerð ópersónugreinanleg. Þú getur hvenær sem er óskað eftir þeim upplýsingum sem vistaðar eru um þig. Ef þú vilt láta eyða gögnunum um þig innan tíu mánaða er hægt að óska eftir því hvenær sem er (á keppnisárinu þýðir það að þú getur ekki lengur tekið þátt í áskoruninni).  Vinsamlega hafðu samband við sky@sky.is og gögnunum verður eytt innan mánaðar. Upplýsingar um umsjónarmenn eru geymdar milli ára til að hægt sé að láta viðkomandi skóla vita um næstu keppni og annað sem tengist Bebras áskoruninni.  Hægt er að óska eftir því að eyða upplýsingum um umsjónarmenn hvenær sem er í gegnum sky@sky.is.

Leitast er við að fara eftir nýjustu lögum og reglum um Persónuvernd á hverjum tíma.